Eru fylgiseðlar lyfja mikilvægir

Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör en það á þó ekki við um fylgiseðla lyfja því þeir eru mikilvægir til að tryggja rétta notkun lyfja. Mikilvægi fylgiseðlanna fer einnig vaxandi eftir því sem ný lyf koma fyrr á markað, því upplýsingar um ný lyf breytast oft mjög hratt, þ.m.t. upplýsingar sem varða öryggi við notkun lyfsins. Ennfremur endurspeglast mikilvægið í því að notendur lyfja sækjast sem betur fer í auknum mæli eftir nýjustu og bestu upplýsingum um lyf sem þeir nota, eða eiga fyrir höndum að nota. Upplýstur notandi aflar sér gjarnan þekkingar áður en hann leitar til læknis eða lyfjafræðings og er þannig betur í stakk búinn til að taka þátt í ákvörðun um lyfjameðferð sem best hentar hverjum og einum.

Lyf eru yfirleitt mikilvirk og vandmeðfarin. Lyfjum er ætlað að hafa mikil áhrif, t.d. á líkamsstarfsemi, eða með því að eyða sjúkdómsvöldum. Bóluefni eru lyf sem koma í veg fyrir sjúkdóma. Sum lyf eru notuð við rannsóknir og þannig mætti áfram telja.

Stöðugt koma fram nýjar upplýsingar um lyf, bæði vegna nýrra rannsókna og vegna þess að á markað koma ný lyf sem geta milliverkað við önnur lyf séu þau notuð samhliða. Einnig koma fram nýjar upplýsingar þegar lyf eru notuð með öðrum hætti en áður hefur tíðkast, t.d. við öðrum sjúkdómum eða handa öðrum sjúklingahópum. Enn eru t.d. að koma fram nýjar upplýsingar um lyf sem hafa verið fáanleg í meira en 100 ár. Þess vegna eru fylgiseðlar lyfja uppfærðir þegar nýjar upplýsingar koma fram.

Þegar um ný lyf er að ræða eru fylgiseðlar stundum uppfærðir oft á ári. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með breytingum á fylgiseðlum þegar um langtíma lyfjameðferð er að ræða. Útgáfudagsetningar er getið í fylgiseðlum og nýjasta útgáfa þeirra er alltaf á vef Lyfjastofnunar.
Læknar og lyfjafræðingar í lyfjabúðum geta veitt þessar upplýsingar.
Fylgiseðlar veita notanda lyfsins nýjustu og bestu upplýsingar um lyfið, eins og þær liggja fyrir á hverjum tíma, samkvæmt mati sérfræðinga heilbrigðisyfirvalda, hér á landi og í öðrum EES ríkjum.

Mikilvægi þess að notendur lyfja kynni sér vel og vandlega upplýsingar í fylgiseðlunum verður því aldrei ofmetið. Ef þörf er fyrir frekari upplýsingar er mikilvægt að leita til læknis eða lyfjafræðings.